Hver er ég?

Ég er fædd 1954 og á fjögur uppkomin börn og níu barnabörn. Ég ólst upp í Reykjavík og er stúdent frá MH 1974.  Ég bjó á árunum 1976 – 1996 í  Borgarnesi og Borgarfirði og stofnsetti og  rak Bauluna um tólf ára skeið. Stundaði viðskiptanám við Háskólann á Bifröst og lögfræði við HÍ. Ég hef unnið við ýmis störf, m.a. hjá Rauða krossi Íslands, bæði sem bókari og deildarstjóri hælisleitenda.  Síðast vann ég hjá Kópavogsbæ sem forstöðumaður.

Ég tók mig til og fór Danmerkur til náms árið 2008 í coaching hjá Manning Inspire og síðan í mastercoach nám hjá sama skóla og útskrifaðist þaðan sem mastercoach í life- & businesscoaching. Nú er ég komin til Íslands með það að markmiði að bjóða upp á framúrskarandi coaching/markþjálfun fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og mannlegum samskiptum og geri mér grein fyrir að það er hægt að ákveða hvort maður kýs að lifa góðu lífi, slæmu lífi eða kannski bara lífi sem aðrir ákveða fyrir mann.

Margir ganga um með höfuðið fullt af hugsunum sem gera ekkert annað en að íþyngja þeim og draga úr virkni þeirra. Þetta eru hugsanir eins og „ég þyrfti að...", eða „ég ætti að...". Aðrir hugsa: „þegar ég eignast nóg af peningum, þá ætla ég að...“  , eða „þegar ég hætti að vinna, þá ætla ég að...”. Hægt er að túlka þessar hugsanir sem svo, að maður lifi ekki lífinu núna, heldur ætli að gera það seinna.

Markþjálfun er góð og áhrifamikil aðferð til að stokka upp í hugsunum fólks. Ef við berum þetta saman við skjalastjórnun í fyrirtækum þá er markþjálfun er áhrifamikil aðferð við „skjalastjórnun“  hugsana. Hversu mikill hluti þeirra eru hugsanir sem við þurfum að nota dags daglega? Getur verið að margar þeirra séu úreltar og eigi ekki lengur heima í lífi okkar? Mætti hugsa sér að „eyða“ einhverjum hugsunum, geyma aðrar og nýta svo afganginn til gagnlegra aðgerða? Afrakstur þeirrar vinnu er einfaldari lífsmáti þar sem vitað er hvert er verið að stefna. Það leiðir til betri lífsgæða.