Hvað er coaching?

Coaching / markþjálfun snýst um að hjálpa þér að finna út hvert þú vilt stefna og hvað kemur í veg fyrir að þú náir settu marki. Leið markþjálfunar til þess er hreinskilin, skilvirk en ekki síst skemmtileg. Í stuttu máli má segja að markþjálfun felist í að uppgötva og virkja til fulls það  sem býr innra með þér. Áhersla er lögð á að vinna frá nútíð til framtíðar og að styðja þig við að takast á við viðfangsefnið og ná árangri.

Sá sem situr fastur í fortíðinni nýtir ekki þá hæfileika sem búa innra með hverjum og einum, hann upplifir ekki gleðina og spenninginn sem felst í því að sýna hvað í manni býr í raun og veru – né það verkefni að takast á við breytingar. Að láta það vera að gera breytingar í lífi sínu er sama og að sætta sig við minni lífsgæði. En í rauninni eiga allir möguleika á að taka ábyrgð á eigin lífi og ákveða hvert þeir vilja stefna.

Markþjálfun snýst um að hjálpa þér og styðja þig við að lifa lífinu eins og þú óskar þér - að skapa það líf sem þú vilt lifa. Þeir sem leita til markþjálfa hafa tekið fyrsta skrefið í átt til þess að þeir verðskuldi að upplifa drauma sína til fulls. Markþjálfun  brúar bilið milli þess lífs sem þú lifir núna og þess sem þú óskar og hefur alla möguleika á að lifa. Leiðin þangað byggir á að þú trúir á að það sé á þínu valdi að komast á leiðarenda.

Með hjálp spurninga og annarra „verkfæra“ færðu innsýn inn í hugsanagang þinn og hegðunarmynstur sem skapar þér möguleika til að gera þær breytingar sem þú óskar eftir. Það má vera að þú veljir að breyta ekki en þá er það meðvituð ákvörðun þín að gera ekkert og þú lifir í sátt og samlyndi við ákvörðun þína.

Stofnað hefur verið Félag markþjálfunar á Íslandi.